Fyrirvari um virkjunarleyfi

Urriðafoss í Þjórsá
Urriðafoss í Þjórsá mbl.is/Sigurður Jónsson

Í lok febrúar sl. gengu Landsvirkjun og Verne Holding frá raforkusölusamningi vegna netþjónabús á Suðurnesjum sem taka á til starfa á næsta ári og verður komið í fullan rekstur árið 2012. Sá fyrirvari er í samningum fyrir raforkusölu Landsvirkjunar að öll leyfi fáist, þar á meðal virkjunarleyfi fyrir virkjunum fyrirtækisins í neðri hluta Þjórsár. Þetta kemur fram á vef Landsvirkjunar.

Mörður Árnason, Samfylkingu, gagnrýndi þetta á Alþingi í dag og líkti Landsvirkjun við sérríki í ríkinu. Að sögn Marðar er það Alþingis að afhenda þessi vatnsréttindi ekki Landsvirkjunar og með þessu sé fyrirtækið að reyna að beita Alþingi fjárkúgun.

Þessu mótmælti Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki, og sagði þetta ekki benda til þess að Landsvirkjun hafi Alþingi í vasanum og geti beitt það fjárkúgun.

Landsvirkjun hefur á undanförnum mánuðum átt könnunarviðræður við fjölmörg fyrirtæki sem vilja byggja upp starfsemi á sviði hátækni á Suður- og Vesturlandi og hafa áhuga á raforkukaupum úr virkjunum þeim sem fyrirhugaðar eru í neðri hluta Þjórsár.

„Auk netþjónabúsins má minna á að samningaviðræður eru í gangi við fyrirtæki vegna mögulegrar framleiðslu á hreinkísli í Þorlákshöfn. Ljóst er að eftirspurnin eftir orku er langt umfram framboð og fyrir liggur að Landsvirkjun hefur ekki aðra virkjunarkosti en í neðri hluta Þjórsár tiltæka til raforkusölu á Suður- og Vesturlandi.  Þá er svigrúm í raforkukerfinu til aukinnar orkuframleiðslu lítið þar sem mikil aukning í raforkusölu hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum og eykst áfram á árinu.

Benda má á að Becromal hefur orkufreka starfrækslu rafþynnuverksmiðju á Akureyri síðar á árinu með rafmagni frá Landsvirkjun án þess að til komi nýjar virkjanir.

Af gefnu tilefni er rétt að árétta að þar sem ekki hefur enn verið gefið út virkjunar- og framkvæmdaleyfi fyrir virkjunum í neðri hluta Þjórsár eru samningar Landsvirkjunar við Verne og aðrir orkusölusamningar sem fyrirtækið kann að gera á næstunni við aðila sunnan heiða gerðir með fyrirvara um að tilskildar heimildir fáist fyrir virkjunum í Þjórsá.

Undirbúningi virkjana í Þjórsá miðar áfram þannig að framkvæmdir gætu hafist á lok ársins eða á fyrri hluta næsta árs ef allt gengur eftir," samkvæmt frétt á vef Landsvirkjunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert