Utanríkisráðuneytið mun senda friðargæsluliða til Maymana-héraðsins í Afganistan í apríl nk. Til stendur að senda einn til tvo friðargæsluliða til að byrja með. Um er að ræða borgaralegt þróunarverkefni, sem þýðir að friðargæsluliðarnir munu ekki bera vopn eða klæðast herbúningi.
Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir vonir standa til að verkefnið geti hafist í apríl. „Við höfum áhuga á því að senda þróunarfulltrúa til að aðstoða við uppbyggingu í Maymana-héraði,“ sagði hún í samtali við mbl.is og bætti við að ekki sé um tímabundið verkefni að ræða.
„Við sendum einn til tvo í apríl, og svo verða þeir allt að fjórir þegar verkefnið verður komið á fullt skrið,“ segir Urður og bendir á að ekki sé búið að tímasetja neitt með nákvæmum hætti.
Nú eru 13 Íslendingar að störfum í Afganistan, en enginn þeirra er staddur í Maymana, sem er í norðurhluta landsins. Urður segir að það hafi verið farið mjög vandlega yfir öll öryggismál í héraðinu. Íslensk stjórnvöld verða í afar nánu samstarfi við Norðmenn og Letta á svæðinu.
„Þetta eru borgaralegir starfsmenn og óvopnaðir. Þeir munu njóta öryggisgæslu þegar þess er þörf frá Norðmönnum og Lettum,“ segir Urður.