Laun lífeyrisþega ættu að taka mið af neyslukönnun Hagstofu Íslands sem birt var 18. desember sl. og vera 226.000 krónur á mánuði fyrir skatta. Jafnframt ættu skattleysismörk að hækka í 150.000 kr. og frítekjumark að vera að lágmarki 100.000 krónur á mánuði.
Svona hljómar hluti áskorunar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, FEB, til stjórnvalda um kjaramál aldraðra, en þrýst er á um að þessar breytingar verði komnar að fullu til framkvæmda þegar á næsta ári.
Stjórn FEB gerði þessar og aðrar kröfur um aðbúnað aldraðra að umtalsefni á blaðamannafundi í höfuðstöðvum félagsins í gær.
Fundarmenn voru sammála um að fjölmennur hópur félagsmanna hefði ekki nægar tekjur til grundvallar framfærslu og að binda þyrfti enda á skerðingu tryggingabóta vegna tekna úr lífeyrissjóði. Einnig þyrfti að einfalda kerfi lífeyristrygginga og tryggja að öryrkjar sem næðu ellilífeyrisaldri héldu áfram aldurstengdum, óskertum örorkubótum.
Fundarmenn tóku hins vegar fram að þeir væru ánægðir með þau skref sem að undanförnu hefðu verið stigin í þá átt að leiðrétta kjör aldraðra. Flutningur málaflokksins til félags- og tryggingamálaráðuneytisins væri fagnaðarefni, sem og flutningur á lífeyrisþætti almannatrygginga til sama ráðuneytis.