Skuldir heimilanna aukast enn

mbl.is

Skuldir heimilanna við lánakerfið námu tæpum 1.552 milljörðum króna í lok síðasta árs, en Seðlabankinn birti í gær tölur yfir reikninga lánakerfisins. Til samanburðar námu skuldirnar í lok 2006 um 1.323 milljörðum króna og er því um rúmlega 17% aukningu að ræða á milli ára. Hafa ber í huga að vísitala neysluverðs hækkaði um 5,8% yfir síðasta ár, en stærstur hluti skulda heimilanna er verðtryggður.

Af skuldum heimilanna við innlánsstofnanir eru um 575 ma.kr. verðtryggðar auk þess sem bróðurpartur skulda heimilanna við ýmis lánafyrirtæki, þ.á.m. Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóði og lánasjóð íslenskra námsmanna er í formi verðtryggra langtímaskulda. Gróflega má ætla að nálægt 80% af skuldum heimilanna séu verðtryggðar, samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

„Til að setja þessar tölur í frekara samhengi námu skuldir heimilanna í árslok um 122% af vergri landsframleiðslu, m.v. spá okkar um hagvöxt á síðasta ári. Athyglisvert er hversu mikið þetta hlutfall hefur hækkað á undanförnum árum. Til samanburðar nam hlutfallið um 114% árið 2006, 90% árið 2000 og 70% árið 1995.

Rekja má hækkun þessa hlutfalls á síðustu árum til breytinga á aðgengi að lánsfé og hækkandi eignaverðs. Auk verðtryggðra skulda heimilanna hefur lántaka þeirra í erlendum myntum farið vaxandi á undanförnum misserum, en við lok síðasta árs námu skuldir heimilanna í erlendri mynt um 9% af heildarskuldum þeirra við lánakerfið.

Hvað heimilin varðar er af þessum tölum ljóst að hagur íslenskra heimila af því að ná niður verðbólgu er verulegur, en gróflega má ætla að verðtryggingin standi fyrir um 60 ma.kr. aukningu skulda heimila við lánakerfið," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert