Spjöll unnin á danska sendiráðinu við Hverfisgötu

Danska sendiráðið stendur við Hverfisgötu. Myndin er fengin af vef …
Danska sendiráðið stendur við Hverfisgötu. Myndin er fengin af vef sendiráðsins.

Einhverjir óprúttnir einstaklingar tóku sig til í skjóli nætur og krotuðu á danska sendiráðið, sem er við Hverfisgötu. Spellvirkjarnir skildu eftir skilaboðin „We will never forget“, eða „Við munum aldrei gleyma“ á einum veggnum. Auk þess var sjóræningjafáni dreginn að húni.

Að sögn Ernst Hemmingsen hjá sendiráðinu er ekki vitað hverjir voru að verki, en engar myndir náðust af atvikinu. Hann segir engan hafa hringt í sendiráðið og verið með hótanir og þá hafi heldur engar hótanir borist bréfleiðis. Hann segir að málið hafi verið kært til lögreglu sem kom á staðinn.

Ernst segir að það sé ekki óvanalegt að húsnæðið verði fyrir barðinu á ölvuðum einstaklingum sem eigi leið fram hjá sendiráðinu, enda sé það nálægt mörgum veitingahúsum. Á sumrin sé t.a.m. ekki óalgengt að menn kasti glerflöskum í húsið.

Aðspurður sagðist Ernst ekki telja að skilaboðin tengist á nokkurn hátt skopmyndunum af Múhameð spámanni, sem danskir fjölmiðlar endurbirtu fyrir stuttu og vakið hafa mikla reiði meðal heittrúaðra múslíma.

Þegar blaðamaður spurði Ernst hins vegar að því hvort hann teldi líklegra að skemmdarvargarnir væru sárir Íslendingar, sem eiga enn erfitt með að sætta sig við 14-2 tapið gegn Dönum í knattspyrnu um árið, hló hann og sagði að sú skýring væri ekki verri en hver önnur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert