Aðalsteinn Arnarson læknir, sem síðastliðið sumar hafði milligöngu um kaup á lyfjum í apótekum í Svíþjóð í gegnum vefsíðuna minlyf.net, fagnar frumvarpinu um breytingar á lyfjalögum sem Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra lagði fram á Alþingi í gær. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að horfið verði frá banni gildandi laga um póstverslun með lyf.
„Þetta breytir hins vegar engu fyrir mig. Aðalmarkmið mitt með milligöngu um kaup á lyfjum var að fá í gang umræðu um lyfsölu. Það er gaman að sjá hvað hlutirnir hafa gerst hratt síðan í sumar,“ segir Aðalsteinn sem lokaði vefsíðu sinni eftir nokkurra daga starfsemi. Lyfjastofnun úrskurðaði að um póstverslun væri að ræða en því mótmælti reyndar Aðalsteinn þar sem hann byði ekki upp á neinar vörur og nyti ekki söluágóða.
Aðalsteinn, sem ekki ætlar að opna vefsíðuna sína aftur, lagði á það áherslu síðastliðið sumar að samkeppnin á íslenskum lyfjamarkaði þyrfti að vera eðlilegri. „Breytingarnar sem er verið að gera í heilbrigðis- og lyfjamálum eru í rétta átt.Verði frumvarpið að lögum hafa Íslendingar möguleika á að fá lyf send erlendis frá. Það hjálpar mörgum, og heilbrigðiskerfinu í heild, við að draga úr lyfjakostnaði.“
Í frumvarpi heilbrigðisráðherra um breytingar á lyfjalögum er jafnframt lagt til að sala nikótínlyfja sem ekki eru lyfseðilsskyld verði heimiluð utan lyfjabúða. Bent er á að nikótínlyf geti hjálpað reykingamönnum að hætta að reykja og því megi færa rök fyrir því að slík lyf skuli vera jafnaðgengileg og tóbak. Einnig er lagt til að hægt verði að kaupa flúorlyf utan lyfjabúða þar sem þau ættu að vera jafnaðgengileg og sætindi og gosdrykkir.
Lagt er til að lyfjaverð verði það sama um allt land. Bent er á að afslættir lyfjabúða eins og þeir birtast sjúklingum í dag mismuni þeim eftir búsetu. Þeir séu flóknir og ógagnsæir og hvetji ekki til notkunar ódýrra lyfja. Afslættir leiði oft til ávísunar og afgreiðslu stærri skammta eða dýrari lyfja en þörf er á. Afslættir geti jafnframt hindrað inngöngu nýrra aðila á markaðinn.
ingibjorg@24stundir.is