Trúnaðarmenn Strætó æfir

„Framkvæmdastjóri Strætó bs. hefur slitið flestöll siðuð samskipti við starfsmenn og trúnaðarmenn þeirra,“ segir í harðorðu bréfi sem trúnaðarmenn starfsmanna Strætó bs. hafa ritað borgarráðsmönnum í Reykjavík.

Í bréfinu er fullyrt að margir vagnstjórar hafi þegar sagt upp störfum og enn fleiri séu að undirbúa uppsagnir, m.a. vegna slæms anda á vinnustaðnum.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, er meðal annars gagnrýndur fyrir að hafa hringt á lögregluna daginn eftir veislu hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og tilkynnt henni að einn trúnaðarmanna Strætó bs. væri líklega að keyra undir áhrifum áfengis. „Hafi markmiðið verið að gera lítið úr viðkomandi þá tókast það vel. Það mældist ekkert,“ segir í bréfinu.

Þá er framkvæmdastjórinn gagnrýndur fyrir að hafa í hótunum við trúnaðarmennina og fyrirskipa að þeir fái ekki frí til trúnaðarstarfa.

Reynir Jónsson framkvæmdastjóri vildi ekkert um málið segja er 24 stundir leituðu til hans.

Í bréfinu er Ármann Kr. Ólafsson, stjórnarformaður Strætó bs., gagnrýndur fyrir að styðja framkomu framkvæmdastjórans og svara ekki bréfum trúnaðarmannanna. Er gefið í skyn að sökum margra starfa Ármanns hafi hann ekki tíma til að sinna stjórnarformannsstarfinu, en Ármann er aðalbæjarfulltrúi í Kópavogi og þingmaður, auk þess að gegna starfi stjórnarformanns Strætó bs.

Treystir Reyni fullkomlega

Ármann vísar slíkum ásökunum á bug. „Ég vil benda á að stjórnarformaður Sorpu er í fullu starfi annars staðar og stjórnarformaður slökkviliðsins er borgarstjórinn í Reykjavík. Þannig að það er alveg ljóst að ég hef síst minni tíma en aðrir í þessum samanburði.“

Varðandi beiðni trúnaðarmannanna um að hann hafi afskipti af samskiptaörðugleikum framkvæmdastjóra Strætó bs. við trúnaðarmennina segir Ármann: „Starfsmannamál eru málefni framkvæmdastjórans og ég treysti honum fullkomlega til að sinna þeim.“

Í hnotskurn
Strætó bs. varð til árið 2001 með sameiningu SVR og AV. Strætó bs. er byggðasamlag í eigu sjö sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert