Talið er að bilun í handvirkum brunaboða hafi valdið því að sjálfvirkt slökkvikerfi fór í gang í búningageymslu í Útvarpshúsinu í Efstaleiti skömmu fyrir hádegi í dag.
„Slökkvikerfið er svæðisskipt og því dældi það einungis Halon slökkvigasi inn í það rými sem boðinn er í," sagði varðstjóri slökkviliðsins á Höfuðborgarsvæðinu í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Reykkafari fór inn og gekk úr skugga um að ekki væri eldur í búningageymslunni og að súrefnismagn væri nægilegt til að hægt væri að hefjast handa við að lofta út. Engum varð meint af.