Enginn formlegur fundur var haldinn í byggingarnefnd KSÍ vegna Laugardalsvallar á þessu kjörtímabili. Þetta kemur fram í niðurstöðum innri endurskoðunar sem kynnt var í borgarráði í dag, að sögn Dags B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingarinnar.
Þar kemur jafnframt fram að við lok síðasta kjörtímabils var bókað á fundi byggingarnefndar að verkið væri á áætlun. Engin aukaverk eða umframkostnaður hefur því verið borinn upp til samþykktar af hálfu KSÍ á fundum byggingarnefndar.
Óljóst er hvort og hvenær slíkur kostnaður hafi verið samþykktur af hálfu Reykjavíkurborgar. Gert er ráð fyrir því að frekari gögn í málinu muni liggja fyrir í borgarráði í næstu viku, samkvæmt upplýsingum frá Degi.
Ítarlega hefur verið fjallað um byggingu nýrrar stúku við Laugardalsvöllinn að undanförnu í 24 stundum.