Stjórnarformenn þriggja af stærstu lífeyrissjóðunum segja enga ákveðna stefnumörkun búa að baki því að þrjú fyrirtæki, Kaupþing, Exista og Bakkavör, hafa mikið vægi í innlendu hlutabréfasafni sjóðanna.
„Sjóðurinn starfar eftir ákveðinni fjárfestingarstefnu sem stjórnin fer yfir frá einum tíma til annars og við höfum fylgst með að kaup og sala í verðbréfaviðskiptum séu í samræmi við fjárfestingarstefnuna,“ segir Vilhjálmur Egilsson, stjórnarformaður lífeyrissjóðsins Gildi. Hann segir að á seinasta ári hafi meira verið selt af hlutabréfum en keypt var „en núna eftir að verðið hefur lækkað mikið þá eru komin upp miklu fleiri kauptækifæri. Það er mjög breytilegt hvað er nákvæmlega keypt eða selt á hverjum tíma í hverju félagi,“ segir Vilhjálmur.
Það séu fyrst og fremst starfsmenn sjóðsins sem meti á hverjum tíma hvar sölu- og kauptækifærin er að finna. Hann bendir á að ef hlutabréfasafn sjóðsins er skoðað yfir nokkurra ára tímabil, megi sjá að það hafi verið mjög breytilegt frá einum tíma til annars hversu stóran hlut sjóðurinn eigi í einstökum fyrirtækjum.
Þessar fjárfestingar séu gerðar til að styrkja eignasafn sjóðsins svo það skili eins góðri ávöxtun og kostur er á. „Ef þannig stendur á að mönnum finnst vera mikið [keypt] í Kaupþingi og Exista ber ekki að leggja neina aðra merkingu í það en að menn hafa séð þarna ákveðin kauptækifæri. Eftir einhvern tíma getur það svo snúist við þannig að menn sjái þarna sölutækifæri,“ segir Vilhjálmur. „