Fá gefins fjarskiptastöðvar

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur mbl.is/ÞÖK

Orkuveita Reykjavíkur hefur fært Slysavarnafélaginu Landsbjörg 67 tetra fjarskiptastöðvar að gjöf. Verða stöðvarnar nýttar fyrir svæðisstjórnir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og koma þær sér vel í uppbyggingu fjarskipta sveitanna, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Tetra-kerfið er fjarskiptakerfi sem viðbragðsaðilar hafa notað og undanfarin misseri hafa björgunarsveitir bæst í þann hóp. Við uppfærslu samskiptakerfis Orkuveitunnar hefur fjölda eldri Tetra stöðva verið skipt út hjá fyrirtækinu. Stöðvarnar nýtast engu að síður björgunarsveitunum, sem eru sem óðast að bæta við fjarskiptabúnað sinn til samhæfingar Tetra-kerfinu.

Það voru þeir Kjartan Magnússon, stjórnarformaður OR og Hjörleifur B. Kvaran forstjóri fyrirtækisins sem afhentu þeim Kristni Ólafssyni, framkvæmdastjóra SL og Daníel Eyþóri Gunnlaugssyni Tetra-stöðvarnar í höfuðstöðum Orkuveitunnar.

Slysavarnafélagið Landsbjörg og Orkuveitan eiga í margvíslegu samstarfi. Björgunarsveitir félagsins á höfuðborgarsvæðinu hafa séð um hina rómuðu flugeldasýningu Orkuveitunnar á Menningarnótt ár hvert og einnig sjá þær um allt viðhald vegpresta og stika meðfram meira en 100 km. gönguleiðum sem Orkuveitan hefur lagt á Hengilssvæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert