Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú halda í opinbera heimsókn til Mexíkó eftir helgina og stendur hún dagana 11.-13. mars. Þetta í fyrsta skipti sem forseti Íslands fer í opinbera heimsókn til Mexíkó og raunar til lands í latnesku Ameríku.
Á undanförnum árum hafa tengsl milli landanna aukist og vaxandi áhugi er á meiri viðskiptum og samvinnu á vettvangi háskólamenntunar og vísinda, rannsókna og orkumála, samkvæmt tilkynningu.
Í fylgd með forseta verða Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og embættismenn frá utanríkisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og skrifstofu forseta. Einnig fylgir forseta í ferðinni til Mexíkó viðskiptasendinefnd skipuð fulltrúum um 15 fyrirtækja og hefur Útflutningsráð annast skipulagningu ferðar hennar.