Gagnrýnir skýrslu um REI og segir fulltrúa vanhæfa

Júlíus Vífill Ingvarsson
Júlíus Vífill Ingvarsson mbl.is

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi skýrslu stýrihóps borgarráðs um málefni Reykjavik Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur á fundi borgarstjórnar í fyrrinótt og sagði jafnframt að Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri grænna, og Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefðu verið vanhæfar að hans mati til að vera í stýrihópnum.

Að sögn Júlíusar Vífils Ingvarssonar fór hann yfir skýrsluna og benti á að í hana vantaði ýmsar upplýsingar sem eðlilegt væri að fylgdu skýrslu sem þessari. Til dæmis upplýsingar um hvernig stýrihópurinn hefði fundað, hverjir hefðu mætt á fundi nefndarinnar, hvaða gögn hefðu verið skoðuð af nefndinni og hver kostnaður við vinnu hennar væri. Auk þess hefði hann bent á að það vantaði ýmsar lögfræðilegar skýringar eins og t.d. varðandi samrunann. Skýrslan fjallaði um viðskipti frekar en stjórnmál en hina viðskiptalegu hugmynd vantaði í hana. Ekkert væri fjallað um verðmat á REI og Geysir Green og hvernig það verðmat væri hugsað eftir sameiningu. Eins hefði hann bent á að Svandís Svavarsdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir hefðu báðar verið í stjórn OR og komið að málinu á ýmsum stigum. Því væri það umhugsunarefni og leiddi til vanhæfni að þær sætu í nefnd sem rannsakaði sérstaklega mál þar sem þær væru gerendur og kæmust að niðurstöðu um það hvernig að málinu væri staðið, meðal annars með tilliti til lagareglna og stjórnsýsluréttar. Hann hefði óskað eftir því að Svandís Svavarsdóttir gerði grein fyrir því hvort hún hefði tekið þátt í því að búa til lista yfir valda starfsmenn sem hefðu átt að njóta þeirra forréttinda að kaupa hlut í hinu sameiginlega félagi á sérstaklega hagstæðu gengi.

Hún hefði lýst því hvernig hún, Sigrún Elsa og Dagur B. Eggertsson hefðu farið yfir þessa lista og breytt þeim og þannig hefðu þeir farið frá þeim. Þessir samningar hefðu verið gagnrýndir í skýrslunni, en ekki væri minnst á þátt þessara þriggja borgarfulltrúa varðandi þetta atriði og það væri ekki til að auka trúverðugleika skýrslunnar. Upphaflega hefði nefndin verið hugsuð sem nefnd oddvita en oddvitar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks hefðu séð að það gengi ekki, þar sem þeir hefðu komið að málinu á ákveðnum stigum. Oddviti Vinstri grænna hefði hins vegar ekki aðeins ákveðið að sitja í nefndinni heldur taka einnig að sér formennskuna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert