Heimilin eru nánast hætt að taka almenn verðtryggð skuldabréfalán í íslenskum krónum. Á sama tíma vaxa lántökur heimilanna í erlendri mynt hröðum skrefum. Þetta sýna tölur frá Seðlabanka Íslands. Talsmenn viðskiptabankanna staðfesta að eftirspurn heimilanna eftir lánum í íslenskum krónum hafi dregist mikið saman. Skýringarnar séu m.a. aukinn áhugi á erlendum lánum og að heimilin séu að fresta lántökum.
Frá ágúst í fyrra til janúar á þessu ári hafa verðtryggð skuldabréfalán bankanna dregist saman um 3% eða um fjóra milljarða, en í þessari tölu eru húsnæðislánin undanþegin. Á sama tíma hafa lán bankanna í erlendri mynt aukist um 25 milljarða (húsnæðislán ekki talin með).
„Það er miklu minni ásókn í íslensk lán en verið hefur,“ segir Benedikt Sigurðsson, upplýsingafulltrúi hjá Kaupþingi. Hann telur að skýringin á þessu sé tvíþætt. Annars vegar hafi margir ákveðið að fresta fjárfestingum og neyslu m.a. vegna óvissu í efnahagsmálum. Hins vegar hafi fólk í auknum mæli snúið sér að erlendum lánum.