Landsvirkjun segir kostnað 7% umfram áætlun

Þegar tekið hefur verið tillit til breytinga á magntölum í framkvæmdinni og verðlagsþróunar kemur í ljós að kostnaður við Kárahnjúkavirkjun hefur farið sjö prósent fram úr áætlun frá 2002, segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

Áætlaður heildarkostnaður við virkjunina er 133,3 milljarðar króna, eins og fram kemur í skýrslu sem Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra lagði fram á Alþingi í dag.

Haft var eftir Álfheiði Ingadóttur, þingmanni VG, í kvöldfréttum RÚV að lesa mætti úr skýrslu Össurar að heildarkostnaður við virkjunina hafi farið 58% fram úr áætlun, eða um 50 milljarða króna umfram verksamninga.

Þorsteinn segir það mikla einföldun að líta annars vegar á áætlunina eins og hún var 2002 og hins vegar á heildarkostnað við virkjunina eins og hann sé nú áætlaður, án þess að framreikna tölurnar og taka tillit til ofangreindra þátta.

Þegar það sé gert teljist Landsvirkjun til að heildarkostnaðurinn, 133,3 milljarðar, sé um sjö prósentum hærri en áætlunin hafi gert ráð fyrir 2002. Þessi hækkun eigi sér síðan eðlilegar skýringar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert