Reykjavíkurborg þáttakandi í Iceland Naturally

Þorkell Þorkelsson

Tillaga Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra þess efnis að Reykjavíkurborg taki þátt í landkynningarátakinu Iceland Naturally í Norður Ameríku var samþykkt á fundi borgarráðs í dag, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Landkynningarverkefnið Iceland Naturally hófst í Norður Ameríku árið 2000. Verkefnið felur í sér samstarf stjórnvalda og íslenskra fyrirtækja með starfsemi á þessu markaðssvæði. Á vegum verkefnisins hefur m.a. verið unnið að skipulagningu og þátttöku íslenskra aðila í viðburðum fyrir almenning, sem hafa það markmið að vekja athygli á Íslandi sem spennandi ferðamannastað og styrkja ímynd landsins með áherslu á hreina náttúru og blómstrandi menningu.

Iceland Naturally verkefnið hefur skilað miklum árangri og sýna reglubundnar kannanir að vitneskja og áhugi íbúa í Norður Ameríku á Íslandi og íslenskri menningu eykst jafnt og þétt. Á undanförnum átta árum hafa því sífellt fleiri fyrirtæki tekið þátt í verkefninu. Eins og áður segir bætist Reykjavíkurborg nú í þann hóp.

Reykjavíkurborg hefur á umliðnum árum staðið fyrir öflugri kynningu á borginni sem áhugaverðum áfangastað og menningarborg. Aðildin að Iceland Naturally verður tvímælalaust til þess að styrkja þá kynningarstarfsemi enn frekar og efla ferðaþjónustuna. Á síðustu misserum hefur verið lögð áhersla á að kynna Tónlistar- og ráðstefnuhúsið og munu viðburðir á vettvangi Iceland Naturally opna enn fleiri tækifæri til að koma því verkefni á framfæri.

Framlag ríkisins til Iceland Naturally í Norður Ameríku er $700.000 á ári og mun Reykjavíkurborg leggja verkefninu til $55.000 á þessu ári en $110.000 á ári á árabilinu 2009-2013. Höfuðborgarstofa, sem sinnir ferðamálum og markaðsstarfi Reykjavíkur, mun sjá um framkvæmd samstarfssamningsins fyrir hönd borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert