SGS segjast skilja bændur

Yfirlýsingar Skúla Thoroddsens, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins (SGS), í frétt í 24 stundum í gær um kröfur Búnaðarþings í kjaramálum hafa valdið allnokkrum titringi. Í drögum að kjaramálaályktun þingsins er lögð áhersla á að tollar á innfluttar landbúnaðarvörur verði ekki lækkaðir. Skúli sagði þær kröfur út í bláinn.

Aðalsteinn Baldursson, sviðsstjóri matvælasviðs Starfsgreinasambandsins, segir þetta ekki rétta lýsingu á afstöðu SGS. „Íslenskur landbúnaður skiptir okkur gríðarlegu máli. Það eru þúsundir starfsmanna innan okkar vébanda sem vinna í kringum landbúnaðinn. Það er ekki annað hægt en að skilja stöðu bænda sem þurfa að taka á sig þessar miklu hækkanir á aðföngum. Við teljum því ljóst að stjórnvöld verði að grípa inn í vegna þeirra þrenginga sem steðja að bændum.“ Aðalsteinn segir að hann hafi þegar rætt við Skúla og gert honum grein fyrir óánægju sinni með hans ummæli í fréttinni.

Allt of sterkt tekið til orða

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, segir að það liggi ekkert fyrir um hvernig útfærsla stjórnvalda á tollalækkunum verði. „Þessi yfirlýsing var gefin út til okkar í Alþýðusambandinu og Samtaka atvinnulífsins til að liðka fyrir kjarasamningsgerð. Það kæmi mér því verulega á óvart ef ríkisstjórnin myndi hlaupa frá yfirlýsingu sinni frá 17. febrúar. Ef ríkisstjórnin félli frá þessum áformum sínum þá myndi það leiða til hærra matvælaverðs en ella og lakari kaupmáttar hjá almenningi að mínu mati.“

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segir að ríkisstjórnin hljóti að þurfa að svara fyrir hvernig standa eigi að aðgerðunum. „Við höfum fengið þá túlkun frá ríkisstjórninni að það eigi að klára þá 40 prósenta lækkun á tollum sem ákveðin var í fyrra. Landbúnaðarráðherra verður svo að svara fyrir það hvernig þessum málum verður háttað.“

Í hnotskurn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert