Upphafleg krafa KSÍ 600 milljónir

 Upphafleg krafa KSÍ á Reykjavíkurborg vegna framúrkeyrslu kostnaðar við framkvæmdir við Laugardalsvöll var um 600 milljónir króna samkvæmt heimildum 24 stunda. Í tillögu að viðaukasamningi sem lagður var fyrir borgarráð í síðustu viku var lögð fram málamiðlunartillaga sem miðar við að borgin greiði 399,4 milljónir. Sú tala er niðurstaða samningaviðræðna við KSÍ þar sem sambandið fellur frá kröfum upp á samtals 64 milljónir króna og lækkar kröfu vegna vaxta og verðbóta úr 114 milljónum króna í 61,2 milljónir. Þá hefur Ístak samþykkt að lækka aukakröfur sínar úr 167 milljónum í 86 milljónir. Þar af á hlutur borgarinnar að vera 60 milljónir. Samtals hafa kröfurnar því lækkað um tæpar 200 milljónir.

Borgin ber ábyrgð á kostnaði

Í samningi milli KSÍ og borgarinnar frá 15. september 2005 kemur fram að KSÍ greiði fyrir þann hluta framkvæmdanna sem snýr að nýju skrifstofuhúsnæði sambandsins. Annar kostnaður við þær greiðist af borginni utan við 200 milljóna framlag ríkissjóðs til verkefnisins. Í samningnum segir að verði kostnaður vegna framkvæmda á eignarhlut KSÍ umfram áætlun beri KSÍ þann kostnað. Í kjölfarið segir orðrétt að „hið sama á við um Reykjavíkurborg og þann hluta framkvæmdanna sem verður eign borgarinnar“. Stærstur hluti þeirra krafna sem KSÍ fer fram á að borgin greiði er vegna framkvæmda á eignum borgarinnar.

Byggingarnefnd brást

KSÍ lagði fram endurreiknaða kostnaðaráætlun í apríl 2006 upp á 1.278 milljónir. Það var eftir síðasta fund byggingarnefndar þann 3. apríl. Því var ljóst strax á þeim tíma að verkið væri komið fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun. Við meirihlutaskipti í borginni í júní var Björn Ingi Hrafnsson settur inn í nefndina. Hún átti að hafa það hlutverk að fara yfir og samþykkja kostnaðaraukningu, en fundaði aldrei eftir 3. apríl.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert