Árni Johnsen, Sjálfstæðisflokki, gerði vanda sjávarplássa að umræðuefni í utandagskrárumræðum á Alþingi í dag. En hann hefur rætt við bæjarstjóra víðsvegar um landið um þann vanda sem steðjar að sjávarbyggðum landsins. Segir hann að það sem bæjarstjórarnir eigi sameiginlegt eru áhyggjur af þorskveiðikvóta og atvinnuleysi sem þýðir að fólk flyst á brott.
Væntingar sveitarstjórnarmanna til þingmanna eru miklar að sögn Árna en menn sammála um að taka þarf fastar á vandanum. Segir Árni að mjög margt sé hægt að gera, svo sem bygging olíuhreinsunarstöðvar og bygging félagsheimila. Vísaði hann til orða bæjarstjórans á Akureyri um að sveitarstjórnir og ríkið verði að standa saman í þessu máli.
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, segir að það sé gott að fá þessar upplýsingar hjá málshefjanda og að samtöl Árna við alla þessa bæjarstjóra séu takt við það sem hann sjálfur hafi upplifað sem og aðrir þingmenn. Segir fjármálaráðherra að þær aðgerðir sem farið hafi verið út í séu mjög viðamiklar, hinar svo kölluðu mótvægisaðgerðir, á annan tug milljarð, sem fara í þetta á tveggja ára tímabili. Segist hann ekki eiga von á öðru en að þessar aðgerðir eigi eftir að skila sér mjög vel bæði til lengri og skemmri tíma.
Staðan metin á ný fljótlega
Að sögn Árna er atvinnuleysi hvergi orðið stórvægilegt og víðast minna en fyrir ári síðan. En aðgerðir ekki að fullu komnar fram og væntanlega ekki að fullu fyrr en líður að lokum fiskveiðiársins. Segir hann að staðan verði metin á ný fljótlega og hvort bregðast þurfi betur við. Of snemmt sé að tjá sig um það á þessari stundu. Segir fjármálaráðherra að ef veiði á loðnu hefði stöðvast lengur en raunin varð hefði sennilega þurft að grípa fyrr inn en ella.
Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum, sagði að það væri afskaplega vel til fundið hjá Árna Johnsen að ræða þennan vanda við flokksbróður sinn á Alþingi og að hann væri reiðubúinn til að ræða þessi mál í hverri viku á Alþingi.
Steingrímur segir að það megi heita að leitun sé að sveitarfélagi utan suðvesturhornsins sem ekki hefur átt í fjárhagslegum vandræðum og þar sé Akureyri ekki undanskilin.
Velti Steingrímur fyrir sér hvort það væri mikið að setja á annan tug milljarða í aðgerðir þegar aflabrestur er jafn mikill og raun ber vitni. Óskaði hann eftir að fá botn í það hvort endurskoðun mótvægisaðgerða sé í gangi eða ekki.
Auka þarf fjölbreytni í atvinnulífinu
Karl V. Matthíasson, Samfylkingu, segir að orsökin liggi hjá fiskveiðistjórnun landsins. Að hans viti kæmi það afar mörgum byggðum vel ef menn á litlum trillum fengi að róa með handfæraveiðifærum. Eins að bjóða upp byggðakvóta og láta sveitafélög sem verst standa njóta ágóðans. Hins vegar er ekki vandinn bara leystur með því að auka fiskveiðikvótann heldur þurfi að auka fjölbreytni í atvinnulífi landsbyggðarinnar.
Bæði Guðni Ágústsson, Framsóknarflokki og Guðjón Arnar Kristjánsson, Frjálslynda flokknum, þökkuðu Árna Johnsen að hefja umræðu um vanda sjávarbyggða í landinu og sögðu að hann hefði unnið vinnu sem ríkisstjórnin hafi átt að gera sjálf, að ræða við sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni.