Drengur á ellefta ári liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir að hafa fengið heilablæðingu á fimleikaæfingu hjá Gerplu á sjöunda tímanum í gær. Drengurinn var að klifra í kaðli ásamt vinum sínum er hann veiktist skyndilega og rann niður kaðalinn.
Samkvæmt upplýsingum Þórs Jónssonar, upplýsingarfulltrúa Kópavogsbæjar, lenti drengurinn á tvöfaldri dýnu og hlaut hann því ekki mikið högg. Hann er hins vegar enn mjög alvarlega veikur.
Hálftíma áður en drengurinn veiktist fótbrotnaði stúlka á sömu fimleikaæfingu. Hún missteig sig illa og hlaut opið beinbrot. Hún var flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.
Fjöldi barna varð vitni að þessum atvikum og var þeim, svo og starfsmönnum og þjálfurum, illa brugðið samkvæmt upplýsingum Þórs. Þar sem um tvö atvik er að ræða virðast upplýsingar um þau síðan hafa skolast eitthvað til í umræðu úti í þjóðfélaginu.
Þór segir að vinir drengsins hafi strax orðið varir við að eitthvað var að og kallað eftir hjálp. Þá hafi sjúkraflutningamaður og sjúkraþjálfari verið við þjálfun í húsinu og hafi þeir veitt drengnum fyrsta flokks aðhlynningu sem læknar segi að hafi jafnvel skipt sköpum.
Haldinn var fundur um málið í morgun með bæjaryfirvöldum í Kópavogi, forsvarsmönnum skóla, íþróttahússins og íþróttafélagsins. Þar var gerð áætlun um samræmdar aðgerðir vegna málsins og þess uppnáms sem það hefur valdið bæði meðal barna og fullorðinna. Áhersla var lögð á að koma réttum upplýsingum á framfæri og ákveðið að bjóða öllum þeim, sem eftir því óska, áfallahjálp bæði strax og síðar.