Rekstrarkostnaður í landbúnaði hefur hækkað verulega um allan heim og hliðstæð þróun blasi við hér og rekstrarútgjöld íslenskra bænda hafa á síðustu vikum og mánuðum hækkað meira en áður hefur þekkst. Þetta kemur í kjaramálaályktun sem var samþykkt við lok Búnaðarþings í gær.
„Eins og Bændasamtök Íslands hafa bent á síðustu mánuði hefur rekstrarkostnaður í landbúnaði hækkað verulega um heim allan. Hliðstæð þróun blasir við hér og rekstrarútgjöld íslenskra bænda hafa á síðustu vikum og mánuðum hækkað meira en áður hefur þekkst.
Þessar hækkanir eru að mestu leyti hluti af alþjóðlegri þróun sem nú leiðir hvarvetna til hækkandi matvælaverðs. Sem dæmi má nefna gríðarlegar hækkanir á fóðurverði, sáðvörum, olíu og ekki síst á áburðarverði sem hefur hækkað sem næst 80%. Þá hefur orðið óheyrileg hækkun á fjármagnskostnaði sem á sér bæði uppruna í alvarlegu ástandi á fjármálamörkuðum heimsins og stöðu efnahagsmála á Íslandi. Afleiðingar þessara hækkana eru þær að rekstrarforsendur í íslenskum landbúnaði eru brostnar að óbreyttu afurðaverði. Þessi staða er ekki aðeins alvarleg fyrir bændur, heldur ógnar hún einnig aðgengi íslenskra neytenda að gæðamatvælum á sanngjörnu verði.
Framtíð íslensks landbúnaðar og þar með mataröryggi þjóðarinnar, er undir því komið að bændur standi af sér núverandi þrengingar.
Við þessar aðstæður leggur Búnaðarþing 2008 áherslu á að afurðaverð til bænda verður að hækka í samræmi við aukinn tilkostnað," að því er fram kemur í ályktun Búnaðarþings 2008.