„Þetta er virkilega slæmt ástand vegna þess að við fáum ekki það fólk sem sækir reynslu og menntun til útlanda til baka í atvinnulífið hér heima. Það skekkir virkilega samkeppnisstöðuna,“ segir Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra námsmanna erlendis, en hann segir marga félaga sem staddir eru í námi erlendis hafa sent sér tölvupóst, bæði þegar húsnæðisverð var sem hæst í desember en einnig núna vegna slæms atvinnuástands.
„Margir nemendur sem eru í námi erlendis treysta sér ekki til að koma heim og eru frekar lengur í námi, fara á atvinnumarkað þar og fjárfesta,“ segir hann og bætir við að leigumarkaðurinn hérlendis sé síður en svo góður kostur.
„Auðvitað vilja flestir koma heim, þangað sem fjölskyldan er og vinirnir,“ segir Garðar.
Hann tók þá ákvörðun að kaupa húsnæði í Danmörku og fékk það á mun lægra verði en sambærilegt hús hérlendis.
Í Danmörku er 37 stunda vinnuvika og segir Óttar mikið muna um þessa 3 tíma á viku, flestir Íslendingar vinni allt að 50 tíma á viku. Þá sé yfirvinna sjaldan greidd út heldur tekur fólk frí á móti sem skilar því að fólk vinnur minna.
Óttar segir að til þess að greiða fyrir daggæslu barna hérlendis þurfi báðir foreldrar að vinna langan vinnudag. „Hvenær á maður þá eiginlega að sjá börnin sín?“
Hann segir þó líklegt að hann flytji til Íslands á endanum. „Fjölskyldan togar og á einhverjum tíma vill maður að börnin læri almennilega íslensku. En fjárhagslega er ekkert vit í að flytja til Íslands.“