Á síðasta ári leituðu 527 einstaklingar til Stígamóta og þar af voru ný mál 277 talsins en alls var fjöldi ofbeldismanna 418 og hafa ekki þeir ekki verið jafn margir síðan árið 1994, samkvæmt ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2007.
Í ársskýrslunni kemur fram að 157 leituðu til Stígamóta á síðasta ári vegna sifjaspella og afleiðingar þeirra eða 42,9%. Vegna nauðgana og afleiðinga þeirra 115 eða 31,4%, grunur um sifjaspell 6 og sami fjöldi vegna gruns um nauðgunar. Þeir sem leituðu til Stígamóta vegna kynferðislegs áreitis voru 59 talsins.
Af þeim nauðgunarmálum sem komu til Stígamóta á síðasta ári voru 59,3% þeirra, eða 70 talsins, skilgreind sem nauðgun sem ekki fellur undir aðrar skilgreiningar nauðgunar sem fram koma í skýrslunni. Hópnauðganir voru 6, nauðgun í hjúskap 10, nauðgun í sambúð 4 og lyfjanauðganir voru 11. Tilvik þar sem fleiri birtingarmyndir nauðgana voru eru 17 talsins.
Umfang starfsins á Stígamótum virðist vera að færast í sambærilegt horf og á byrjunarárunum fyrir tíma Neyðarmóttöku vegna nauðgana og Barnahúss. Fjöldi einstaklinga sem leita sér hjálpar er meiri en síðan árið 1995. Ofbeldismenn teljast 50% fleiri en þau sem beitt voru ofbeldinu og hafa ekki talist svona margir síðan árið 1994. Fjöldi einstaklinga sem færist á milli ára er meiri en í fyrra og nemur fjölgunin 20,2%. Heildarfjöldi viðtala er minni en í fyrra sem nemur 8,8%. Skýra má aukninguna að hluta til vegna aukinna umsvifa utan hússins og með þjónustu við Austfirðinga.
Á árinu leituðu 23 einstaklingar hjálpar vegna kláms og vændis, árið áður voru ný klám og vændismál 17. Ef vændismálin eru skoðuð sérstaklega voru ný mál á árinu 12, en mikilvægt er að bæta við þeim 13 vændismálum sem fylgdu okkur frá fyrri árum. Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst hin nánu tengsl á milli kláms og vændis annars vegar og annars kynferðisofbeldis hins vegar.
Í skýrslu Stígamóta kemur fram að oftast á ofbeldið sér stað á sameiginlegu heimili þess sem er beittur ofbeldinu og ofbeldismanns, á heimili þess sem er beittur ofbeldinu eða á heimili ofbeldismanns, samtals í um 66 % tilfella. Kynferðisofbeldi í almannarými vekur mikinn óhug og fjölmiðlaumtal. Algengasti brotavettvangurinn er þó eftir sem áður íslensk heimili, að því er segir í skýrslunni.
Á þeim átján árum sem liðin eru frá stofnun Stígamóta til ársloka 2007 hafa 4.776 einstaklingar leitað aðstoðar hjá Stígamótum. Ofbeldismennirnir teljast vera 6.787 en eru væntanlega nokkuð færri þar sem einhverjir þeirra hafa beitt fleiri en einn einstakling ofbeldi.
Vefur Stígamóta