Brynhildur Ásta Bjartmarz lýkur senn æfingum á báðar gerðir björgunarþyrlna Landhelgisgæslunnar. Með því verður hún fyrsti kvenkyns atvinnuþyrluflugmaðurinn á Íslandi, ásamt Marion Herera. Þær voru báðar ráðnar til gæslunnar fyrir skömmu. Brynhildur, sem er 27 ára gömul, lærði þyrluflug í Bandaríkjunum og blindflug í Svíþjóð þar til hún var ráðin nú í nóvember. Síðan þá hefur hún stundað æfingar og gerir ráð fyrir að ljúka þeim í apríl.
Hún lætur vel af starfsandanum hjá Gæslunni. Aðspurð segist hún hafa fengið jákvæðar viðtökur og mikinn stuðning. Konur hafi áður verið í þyrluáhöfnum en ekki sem flugmenn, þetta séu því viðbrigði á vinnustaðnum. „Það er verið að byggja nýjan búningsklefa handa okkur,“ segir hún og játar því að þarna hafi ríkt dálítið karlaveldi hingað til.