Ráðherrar taka við slaufum

Guðrún Agnarsdóttir nælir slaufu í Geir H. Haarde
Guðrún Agnarsdóttir nælir slaufu í Geir H. Haarde

Ráðherrar ríkisstjórnar Íslands gáfu sér tíma fyrir vikulegan ríkisstjórnarfund í morgun til að leggja átakinu Karlmenn og krabbamein lið og kaupa fyrstu slaufurnar sem seldar eru til styrktar kynningarátakinu. Slaufurnar verða seldar næstu tvær vikur á fjölda útsölustaða um allt land.

Þetta er í fyrsta skipti sem efnt er til sérstaks átaks um karlmenn og krabbamein hér á landi. Einkennistákn átaksins er þrílit slaufa; blá, hvít og fjólublá, en litirnir tákna þrjú algengustu krabbamein í körlum; blöðruhálskirtils-, lungna- og ristilkrabbamein. Slaufan er hönnuð að frumkvæði Krabbameinsfélags Íslands, samkvæmt tilkynningu.

Slaufan fór í sölu í dag og verður hægt að kaupa hana hjá Póstinum, Frumherja, Sambíóunum, Kaffitári, verslunum Eymundsson og ýmsum öðrum sölustöðum um land allt. Slaufan kostar 500 krónur og rennur ágóði söfnunarinnar til forvarna og kynningar á krabbameini hjá karlmönnum.

Að meðaltali greinast árlega um 630 íslenskir karlar með krabbamein, þar af 190 með krabbamein í blöðruhálskirtli, 64 með lungnakrabbamein og 51 með ristilkrabbamein.

Kaupþing er aðalstyrktaraðili átaksins en samstarfsaðilar eru Kaffitár, Eymundsson, Margt smátt, Sambíóin, Frumherji og Pósturinn.


Björn Bjarnason, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir taka við …
Björn Bjarnason, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir taka við slaufum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert