„Ég hef gaman [af því] að leika mér í kynlífinu, nýt þess alltaf ef vel gengur og því ekki að prófa að gera það sem fæstir vilja?“ Með þessum orðum svarar íslensk kona, sem býður upp á „erótískt nudd“ og auglýsir á heimasíðu sinni, þeirri spurningu hvers vegna hún hafi kosið sér þann starfsvettvang.
Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir lögregluna hafa umrædda netsíðu til skoðunar. Meira sé ekki hægt að segja um málið að svo stöddu. Hann segir lögreglu fá ýmsar ábendingar um vændi í borginni og fylgja þeim eftir. Komi í ljós að um sé að ræða „einyrkja“, þ.e. að þriðji aðili hagnist ekki á vændinu, sé ekkert aðhafst frekar.
Á heimasíðunni er m.a. undirsíða með spurningum og svörum, og reglur í tuttugu liðum sem viðskiptavinir þurfa að fylgja.
Í spurt og svarað-liðnum getur viðskiptavinurinn t.d. komist að því að hann megi fá eins margar fullnægingar og tíminn leyfi, og fái fimmta hvert skipti ókeypis.
Meðal reglna sem viðskiptavinir þurfa að uppfylla er að mæta ekki í pantaðan tíma undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa, og greiða eingöngu með peningum.
„Ef þú sérð mig einhvers staðar á almannafæri óska ég eftir því að þú látir sem ekkert sé og gerir ekki neina tilraun til að tala við mig,“ segir ennfremur í reglunum.