Göllum í nýbyggingum hefur fjölgað undanfarið, það er óumflýjanleg staðreynd. Réttur þeirra sem kaupa af aðila sem byggir og selur eignir í atvinnuskyni er mjög ríkur en þó geta málaferlin verið þung í vöfum. Hinn 1. apríl nk. verður í Danmörku lögfest skyldutrygging verktaka gegn göllum í nýbyggingum. Slíkt hefur ekki verið skoðað hér en formaður Húseigendafélagsins telur það sjálfsagt.
Tryggingin er til tíu ára og fylgir eigninni. Ljóst er að með því að lögfesta hana mun byggingarkostnaður hækka og þar með íbúðaverð en Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, telur aukin útgjöld jafnvel réttlætanleg, þ.e. ef með þeim er hægt að komast hjá kostnaðarsömum málaferlum.