Hlaut fjögurra ára fangelsi fyrir hrottafengna nauðgun

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær pólskan karlmann í 4 ára fangelsi fyrir nauðgun í Vestmannaeyjum í september sl. Ákærði heitir Andrzej Kisiel og var sakfelldur fyrir að nauðga konu á víðavangi eftir dansleik. Konunni tókst að komast á lögreglustöð illa til reika og hófst rannsókn á málinu sem leiddi til ákæru ríkissaksóknara. Dómurinn er með þyngstu dómum í nauðgunarmálum sem fallið hafa hérlendis.

Árásin var að mati héraðsdóms talin hrottafengin og hafði mjög alvarlegar afleiðingar fyrir konuna. Var maðurinn dæmdur til að greiða henni 2 milljónir króna í bætur.

Ákærði viðurkenndi að hafa haft samfarir við konuna að loknum dansleik en með samþykki hennar. Dómurinn tók ekkert mark á þessu og taldi frásögn hans um að konan hefði viljað þýðast hann við þær aðstæður sem voru, án nokkurs aðdraganda eða orðaskipta þeirra á milli, ótrúverðuga.

Læknir sem skoðaði konuna á sjúkrahúsi sagði áverka hennar samrýmast því að henni hefði verið haldið niðri. Hefði hún borið öll einkenni kreppu og spennu og taldi læknirinn ólíklegt að áverkarnir hefðu getað komið til við samfarir án ofbeldis.

Sálfræðingur sem kom fyrir dóminn sagði konuna hafa uppfyllt öll skilyrði áfallastreituröskunar. Annar sálfræðingur greindi þessu til viðbótar langvarandi áfallaröskun hjá konunni og sagði að það væri ekkert sem benti til þess að hún væri að gera sér þetta upp.

Læknir sem rannsakaði konuna nánar taldi áverka hennar í samræmi við vel þekktar afleiðingar kynferðisofbeldis og taldi fjölskipaður dómurinn að sök mannsins um nauðgun væri sönnuð.

Konan mundi mjög takmarkað eftir atvikum en mundi þó eftir að hafa dansað við vinkonu sína á dansleiknum. Mundi hún líka eftir að hafa legið á grúfu og fundið gífurlegan sársauka. Lögreglumennirnir sem tóku á móti konunni á lögreglustöðinni kváðu hana hafa verið í mikilli geðshræringu.

Málið dæmdu héraðsdómararnir Hjörtur O. Aðalsteinsson, Ástríður Grímsdóttir og Þorgerður Erlendsdóttir. Hulda Elsa Björgvinsdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara, sótti málið og verjandi var Sigurður Jónsson hrl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert