Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra heimsótti heimamenn við Þjórsá í Skaftholti í
Skeiða- og Gnúpverjarheppi í vikulokin. Fundurinn með ráðherranum gaf heimamönnum
nýja trú á að leikreglur lýðræðisins verði virtar í samskiptum
Landsvirkjunar við almenning á Íslandi og landeigendur við Þjórsá, segir í tilkynningu frá samtökunum Sól á Suðurlandi.
Þórunni var afhent á fundinum erindi sem unnendur Þjórsár sendu inn á Búnaðarþing í vikunni. Umhverfisráðherra var einnig afhent áskorun til stjórnvalda sem samþykkt var á fjölmennum fundi í Fríkirkjunni fyrir skemmstu.
Í fréttatilkynningu frá Sól á Suðurlandi í morgun segir ennfremur:
„Þjórsá verður ekki virkjuð í byggð! Þetta kom fram í vikunni þegar
Landsvirkjunn kastaði sauðargærunni. Fyrirtækið neitar að selja netþjónabúi
á Suðurnesjum orku nema frá Þjórsárvirkjunum.“
„Þetta er gert til þess að setja þrýsting á stjórnvöld til að leyfa
Landsvirkjun að fara sínu fram gegn vilja heimamanna við Þjórsá. Af því að
orkan verði nýtt í græna starfsemi. Landsvirkjun gleymir að geta þess að
orkan fyrir netþjónabúið er til og það þarf ekki að virkja Þjórsá.“
„Mörður Árnason þingmaður tók rösklega á þessu máli á Alþingi í vikunni.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Björgvin G. Sigurðson
viðskiptaráðherra lýstu bæði andstöðu við eignarnám og virkjanir í Þjórsá,
þrátt fyrir nýjasta útspil Landsvirkjunar.“