„Ég á ekki eign og ekki peninga,“ segir Edda Jóhannsdóttir blaðamaður sem missti leiguhúsnæði á dögunum og sér engan annan kost en að flytja út fyrir landsteinana þar til hún finnur aðra íbúð með hóflegri leigu.
„Það er verið að bjóða tveggja herbergja íbúðir á 90 og upp í 120 þúsund á mánuði. Það er ekki möguleiki að ég ráði við það, þrátt fyrir smávegis húsaleigubætur. Ég er búin að sækja um íbúð í Kópavogsbæ, þar sem ég bjó, en þar er mjög löng bið. Og frekar en að hírast í herbergi ætla ég að búa úti hjá dóttur minni, líka af því að ég get unnið aðeins ef ég er með tölvuna með mér,“ segir Edda, sem fjallar um málið á vefsíðunni hondin.is, en samtökin Höndin hafa að markmiði að hjálpa fólki til sjálfshjálpar.
Edda keypti íbúð með fyrrverandi eigimanni sínum árið 1983, en þau réðu ekki við afborganirnar og var íbúðin seld á nauðungarsölu tíu árum síðar. „Við skiptum með okkur skuldunum og ég er enn að basla í því.“
Ítarlega er fjallað um fasteignamarkaðinn í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins.