Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari telur að dómarar megi tjá sig meira um dómarastörfin opinberlega til þess að fólk skilji betur störf þeirra. Gamla hugmyndin um að þögn dómara og fjarlægð skapi traust og virðingu sé misskilningur. Þetta kemur fram í viðtali við Jón Steinar í Fréttablaðinu.
„Stundum áttar fólk sig ekki á því hvers vegna tiltekinn brotamaður fær ekki þyngri refsingu en raun ber vitni og fjölmiðlar eru oft fljótir til að taka undir slík sjónarmið. Það koma síðan engin andsvör eða skýringar. Þetta er til þess fallið að grafa undan traustinu,“ segir Jón Steinar.
„Ég lít svo á að það ætti að vera grundvallaratriði í upplýstu þjóðfélagi að fólk þekki meginsjónarmið þeirra sem fara með dómsvald. Eins og þjóðfélag okkar er í dag þá getur traust og virðing ekki byggst á fjarlægð og þekkingarleysi á störfum dómstóla,“ segir hæstaréttardómarinn í Fréttablaðinu.