Meðal þess sem rætt var á fundi utanríkisráðherra Íslands og Færeyja í dag var möguleikinn að opna fyrir verslun með lyf milli landanna. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að með því gætu Íslendingar t.d. keypt lyf gegnum póstverslun frá Færeyjum og Færeyingar boðið í lyfjakaup hér á landi. Lyf eru nú ódýrari í Færeyjum en hérlendis.
Høgni Hoydal, fyrstu utanríkisráðherra Færeyja, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra ræddu ýmis mál, m.a. samstarf á sviði menntamála, heilbrigðismála, alþjóðamála og sjávarútvegsmála. „Mér finnst mikill heiður fyrir okkur að fyrsti færeyski utanríkisráðherrann skuli fara í sína fyrstu opinberu heimsókn til Íslands. Mér finnst það undirstrika þá vináttu og tengsl sem eru á milli þessara þjóða,“ sagði Ingibjörg Sólrún í dag Høgni sagði það líka mikinn heiður fyrir sig að hafa verið boðið til Íslands.
Nánar er fjallað um fund ráðherranna í Morgunblaðinu á morgun.