Fyrirtækið Nýtt upphaf vinnur nú að því í samstarfi við Ástráð, forvarnarstarf læknanema, og fleiri aðila að dreifa smokkum til fornvarnarfulltrúa grunn- og framhaldsskóla. Í verkefninu er gert ráð fyrir að forvarnarfulltrúar fái smokka handa öllum nemendum níundu og tíundu bekkja grunnskólanna og framhaldsskólanna til að nota í forvarnar og fræðsluskyni.
Hrafnhildur Ósk Sigurðardóttir, eigandi Nýs upphafs sem m.a. rekur netsíðuna smokkur.is, segir að um sé að ræða um 37.000 nemendur og að gert sé ráð fyrir að allt að 50.000 smokkum verði dreift í tengslum við verkefnið. Hún segir það síðan vera alfarið í höndum forvarnaraðila hvers skóla fyrir sig að ákveða hvernig smokkarnir verði nýttir í forvarnarstarfinu og að því sé alls ekki sjálfgefið að þeim verði dreift til nemenda.
Hrafnhildur gerir þó ráð fyrir því að viðbrögð við verkefninu verði bæði jákvæð og neikvæð þar sem kynlífsfræðsla sé alltaf viðkvæm. Tilgangurinn með verkefninu sé hins vegar sá að útvega forvarnaraðilum tæki til forvarnarkennslu, sem þeim sé í sjálfsvald sett hvernig þeir nýti.
Þá sé gildistími smokkanna fjögur ár þannig að jafnvel þótt ungmenni fái þá í hendur sé ekkert sem reki á eftir þeim að nota þá.