Tvær stórar sveiflur urðu með verulegri fjölgun nýrra öryrkja árin 1993 til 1995 og frá árinu 2003. Báðar þessar sveiflur verða samhliða verulegri aukningu atvinnuleysis. Örorka hefur síðan hjaðnað í kjölfar þessara uppsveiflna, þó að ekki sé það í sama styrk og hjöðnun atvinnuleysis.
Þetta kemur fram í grein í Læknablaðinu eftir Sigurð Thorlacius og Stefán Ólafsson.
Í seinni sveiflunni kom fjölgun öryrkja ári síðar en aukning atvinnuleysis, auk þess sem fjölgun öryrkja varð meiri. Sambandið heldur á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni í heild en fráviks gætir á Suðurnesjum, Suðurlandi og Norðurlandi vestra þar sem nýskráningum öryrkja fækkaði minna en annars staðar í kjölfar minnkandi atvinnuleysis.
Ályktun greinarhöfunda er að nýskráning öryrkja ráðist af heilsufari umsækjenda en sveiflur í tíma tengjast einnig umhverfisáhrifum á vinnumarkaði, einkum atvinnuleysi.
„Skipan velferðarmála, einkum bóta- og endurhæfingarkerfa, sem og umfang og áhrif virkniaukandi aðgerða á vinnumarkaði hafa einnig áhrif á fjölda örorkulífeyrisþega í landinu. Nýr örorkumatsstaðall gæti hafa haft einhver áhrif á framvinduna á seinni hluta tímabilsins og aukin sókn fólks með geðræna kvilla inn í örorkulífeyriskerfið virðist hafa haft talsverð áhrif á fjölgun örorkulífeyrisþega,“ segja höfundar.
Þekkt er að örorka tengist atvinnuleysi. „Í könnun á högum þeirra sem urðu öryrkjar á Íslandi árið 1997 reyndust 45% þátttakenda einhvern tíma hafa verið atvinnulausir, þar af 35% á undanförnum fimm árum. Í Svíþjóð hefur vaxandi örorka einnig verið tengd auknu atvinnuleysi og umtalsverður hluti öryrkja hefur verið atvinnulaus áður en sótt er um örorkubætur. Í rannsókn þar sem skoðaðar voru breytingar á nýgengi örorku og atvinnuleysisstigs hér á landi ár frá ári á tímabilinu 1992 til 2003 var sýnt fram á sterkt tölfræðilegt samband milli þróunar atvinnuleysis og breytinga á nýgengi örorku og leiddar líkur að því að um orsakasamband gæti verið að ræða. Á síðasta árinu sem rannsóknin náði til, árinu 2003, varð mikil aukning bæði á nýgengi örorku og atvinnuleysi hjá báðum kynjum. Í kjölfarið hefur atvinnuleysi farið minnkandi. Ef atvinnuleysisstig er áhrifaþáttur fyrir nýgengi örorku má gera ráð fyrir að nýgengi örorku hafi einnig minnkað,“ segja greinarhöfundar.