Umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu mun á næstu vikum verða með sérstakt umferðar- og hraðaeftirlit í og við íbúðargötur í umdæminu í samvinnu við svæðisstöðvar embættisins. Til eftirlitsins mun notuð ómerkt lögreglubifreið sem búin er myndavélabúnaði.
Reynslan hefur sýnt að notkun slíks búnaðar gefur gagnlegar upplýsingar um ástand umferðarmála og auðveldar leit að lausnum þar sem þeirra er þörf, segir í tilkynningu frá lögreglunni í dag.
Mælingar munu gerðar eftir ábendingum frá starfsmönnum svæðisstöðva. Sérstök áhersla mun lögð á hverfi í námunda við skóla á grunn- og leikskólastigi. Markmið lögreglu er að ná umferðarhraða niður þar sem þess er þörf og telur að það sé best gert með upplýstri umræðu.
Niðurstöður mælinganna verða kynntar á vef lögreglunar að þeim loknum auk þess sem þær verða sendar yfirvöldum í viðkomandi sveitarfélagi. Áætlað er að verkefni þetta hefjist formlega þriðjudaginn 11. mars en þá verður myndavélabifreið lögreglunnar staðsett í Hafnarfirði.