„Stefnumótabíll“ kemur með lækni á vettvang!

Það hefur ekki farið framhjá landsmönnum að læknir er ekki lengur á sjúkrabíl 701, neyðarbíl slökkviliðsins. Hið nýja fyrirkomulag hefur sætt harðri gagnrýni og sögðu margir unglæknar á LSH upp störfum sínum í kjölfar þessarar ákvörðunar sem tekin var í hagræðingar- og sparnaðarskyni meðal annars.

En nú hefur málið fengið nýtt sjónarhorn sem vonandi sættir hin ólíku sjónarmið.

„Við hjá slysa- og bráðasviði LSH höfum fengið heimild hjá heilbrigðisráðuneyti til kaupa á svokallaðri „stefnumótabifreið“, sem verður Volvo-skutbíll,“ segir Már Kristjánsson, sviðsstjóri lækninga á Landspítala.

„Við höfum þá tækifæri til að senda lækni frá bráðadeildinni beint á vettvang í völdum tilfellum. Tilvikum eins og þegar um endurlífgun er að ræða eða einhver er stórslasaður og fyrirsjáanlegt er að sá slasaði verður lengi á slysvettvangi vegna þess að hann er fastur í bílflaki eða undir öðru fargi.“

Engin fagleg rök eru fyrir því að ákvörðun um að læknir sé ekki lengur í áhöfn neyðarbíls leiði til dauðsfalla á höfuðborgarsvæðinu, segir landlæknir, Sigurður Guðmundsson, á heimasíðu embættisins.

„Í þá tæpa tvo mánuði sem liðnir eru frá því að breyting þessi tók gildi hafa sjúkraflutningar og viðbrögð við bráðavanda á höfuðborgarsvæðinu gengið vel. Læknir hefur verið kallaður út að meðaltali einu sinni á sólarhring, í samræmi við verklagsreglur, en snúið við áður en á útkallsstað kom í um það bil helmingi þeirra tilvika. Vel er fylgst með ferli og árangri flutninga á hverjum degi og sérstök úttekt verður gerð innan tíðar á fyrstu vikum og mánuðum eftir breytingarnar.

Landlæknir hefur stutt þessar breytingar og faglegar forsendur þeirra enda verður ekki séð að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu með þeim,“ segir landlæknir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert