6,8% íbúa erlendir ríkisborgarar

mbl.is/Jón H. Sigmundsson

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað hérlendis á undanförnum árum og svo var einnig árið 2007. Þann 1. janúar 2008 voru skráðir hérlendis 21.434 erlendir ríkisborgarar. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda var þá 6,8% samanborið við 6% ári áður. 

Á vef Hagstofu Íslands kemur fram að þessum tölum má þó taka með þeim fyrirvara að það getur dregist að útlendingar sem fá dvalarleyfi séu skráðir hjá þjóðskrá og á sama hátt geta liðið nokkrir mánuðir þar til einstaklingar sem flytjast af landi brott eru felldir úr íbúaskrá.

Fleiri erlendir ríkisborgarar hér en annars staðar á Norðurlöndum

Erlendum ríkisborgurum fjölgaði úr 18.563 í 21.434 árið 2007. Það er 15,5% fjölgun á milli ára. Það er þó minni fjölgun en tvö síðustu ár en erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 34,7% árið 2006 og 29,5% 2005.

Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda á Íslandi er nú hærra en á hinum Norðurlöndunum en árið 2006 var hlutfall erlendra ríkisborgara næst hæst í Svíþjóð, 5,4%. „Hafa ber þó í huga að á hinum Norðurlöndunum er lengri hefð fyrir komu innflytjenda og því fleiri sem fengið hafa ríkisfang í nýja landinu. Fjölmennastir erlendra ríkisborgara hér á landi voru Pólverjar (8.488), Litáar (1.332), Þjóðverjar (984) og Danir (966), líkt og verið hefur undanfarin ár."

Fram til ársins 2003 voru konur jafnan fjölmennari en karlar í hópi erlendra ríkisborgara. Síðan 2004 hafa karlar hins vegar verið mun fjölmennari en konur meðal erlendra ríkisborgara. Í árslok 2007 voru karlar með erlent ríkisfang 8,1% allra karla en konur með erlent ríkisfang 5,5% allra kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert