| Áhersla var lögð á nýsköpun í atvinnumálum og umhverfisvæna framtíðarsýn á Austurþingi Framtíðarlandsins. Stefnt var saman hugmyndaríku og kraftmiklu fólki úr atvinnulífinu og menningargeiranum og þeim sem koma að nýsköpun.
Framtíðarlandið og Nýheimar efndu til Austurþings í Nýheimum á Höfn í Hornafirði sl. laugardag. Þingið var hið þriðja í röð landshlutaþinga sem Framtíðarlandið stendur fyrir í vetur. Vesturþing var haldið í nóvember í fyrra og Reykjanesþing nú í febrúar sl.
Þeir Ari Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Frumunnar, og Þorvarður Árnason, forstöðumaður Háskólasetursins, kynntu meðal annars verkefnin Economuseum Northern Europe og NEED, Northern Environment Education Development, en þessi verkefni hafa fengið fjárhagslegan stuðning upp á rúmar 50 milljónir frá Norðurslóðaáætlun Evrópu. Ari og Þorvarður leiða verkefnin fyrir Íslands hönd.
Að sögn Ara Þorsteinssonar er markmið verkefnisins að hagnýta sér reynslu og þekkingu sem skapast hefur í árangursríku sambærilegu verkefni frá Kanada. Economuseum-verkefnið sameinar menningu, handverk og ferðamennsku til að mynda grundvöll fyrir handverksfólk sem notar að stærstum hluta aldagamlar aðferðir til að skapa ný störf. Verkefnið nýtist við þróun viðskiptahugmynda og sýningahald, einnig kennslu og þjálfun ungs fólks. „Við höfum kallað það hagleikssmiðju á íslensku,“ segir Ari Þorsteinsson framkvæmdastjóri Frumunnar.
Hitt verkefnið, NEED, er samstarfsverkefni Íslands, Finnlands, Noregs og Íslands og eru íslenskir þátttakendur fyrir utan Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Nýheimum, Háskólasetrið Húsavík, Þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfrum, Þróunarstofa Austurlands, Kirkjubæjarstofa, Þjóðgarðurinn Skaftafelli og sveitarfélögin Hornafjörður, Skaftárhreppur, Fljótsdalshérað og Norðurþing. Umsjón með verkefninu hefur Háskólasetrið á Höfn.
Fram kom hjá Þorvarði Árnasyni að eitt meginmarkmið verkefnisins væri að bæta og auka umhverfiskennslu og nýsköpun á sviði fræðandi ferðaþjónustu í samstarfi við tengda aðila með áherslu á jarðfræðisögu, mótun lands og umhverfismál. „Með slíkri miðlun er leitast við að hafa áhrif á viðhorf ferðamanna til umhverfis og sjálfbærrar nýtingar,“ segir Þorvarður Árnason forstöðumaður Háskólaseturs á Höfn.