Efast um réttmæti leyfisins

Ásdís Ásgeirsdóttir

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra lýsir furðu sinni á ákvörðun sveitarstjórna Reykjanesbæjar og Garðs um að veita álveri Norðuráls sf. í Helguvík framkvæmda- og byggingarleyfi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá umhverfisráðuneytinu í kvöld.

Í ljósi þess að málið er enn til umfjöllunar í umhverfisráðuneytinu og vegna þeirra álitaefna sem Skipulagsstofnun vakti athygli á í áliti sínu um mat á umverfisáhrifum verksmiðjunnar, þá telur umhverfisráðherra að efast megi um réttmæti slíkrar leyfisveitingar á þessari stundu.

Í umhverfisráðuneytinu er nú unnið að úrskurði í máli Landverndar sem kærði ákvörðun Skipulagsstofnunar um að nýta ekki heimildir sínar til þess að láta framkvæma heildstætt umhverfismat fyrir álver í Helguvík og tengdar framkvæmdir. Þetta er í fyrsta skipti sem reynir á þetta ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum og því telur umhverfisráðherra að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti ef sveitarfélögin hefðu beðið með að taka næsta skref í málinu þar til að úrskurður ráðherra liggur fyrir. Nokkur dráttur hefur orðið á úrskurði ráðuneytisins, m.a. vegna þess að Norðuráli sf. var að ósk fyrirtækisins í tvígang veittur frestur til að koma athugasemdum á framfæri. Gögn frá fyrirtækinu bárust ráðuneytinu mánudaginn 3. mars síðastliðinn. Úrskurðar ráðuneytisins er að vænta fyrir næstu mánaðamót.

Í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum álvers í Helguvík beindi Skipulagsstofnun því til viðkomandi sveitarstjórna að niðurstaða um ýmis álitaefni lægju fyrir áður en framkvæmda- og byggingarleyfi yrði gefið út fyrir álverið. Í álitinu segir m.a að stofnunin bendi á að þeir virkjanakostir sem Hitaveita Suðurnesja hyggist nýta vegna fyrsta áfanga álversins eiga eftir að fara í umfjöllun samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og að sveitarfélögin þurfa að huga vel að þessari stöðu þegar kemur að leyfisveitingum. Þá sagði einnig í álitinu að Skipulagsstofnun teldi að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þyrftu sveitarfélögin að huga að því hvort bíða ætti með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins þar til niðurstaða í þeim efnum lægi fyrir. Einnig taldi stofnunin að áður en Noðuráli sf. yrði veitt framkvæmda- og byggingarleyfi þyrfi að liggja fyrir hvort fyrirtækið fengi þær heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda sem þyrfti eða hefði sýnt veitanda losunarheimilda fram á hvernig losun gróðurhúsalofttegunda yrði mætt.

Lögum samkvæmt þarf sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar og er það í raun forsenda þess að leyfi verði veitt. Hægt er að bera slíkar leyfisveitingar undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

Í ráðuneytinu var það tekið til athugunar hvort lagaskilyrði fyrir frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar væru fyrir hendi. Að mati lögfræðinga ráðuneytisins reyndist svo ekki vera eins og á stóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert