„Hér er enginn kynbundinn launamunur,“ segir Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr, enda fer hann ásamt þremur starfsmönnum reglulega yfir laun starfsfólks til að kanna hvort óréttmætur munur sé á launum. Finnist einhver halli er hann svo leiðréttur.
„Við höfum tvisvar gert umfangsmikla úttekt á launum starfsmanna þar sem þau eru skoðuðmeð tilliti til kyns, menntunar, ábyrgðar og starfsreynslu,“ segir Þórólfur. Hópurinn fer einnig yfir útskrift á launum í hverjum mánuði og skoðar þær launabreytingar sem gerðar hafa verið.
„Þetta er þó ekki alltaf auðvelt því að hér er sérhæfingin slík að frasinn „sömu laun fyrir sömu störf“ á ekki við. Svo höfum við verið að spyrja eftir því hvort til séu einhverjar matsaðferðir eða vottun um að kynbundinn launamunur sé ekki til staðar en slíkt virðist ekki til, “ segir Þórólfur.
Aðspurður um hvort ekki fylgi því óþarfa kostnaður að hækka laun starfsmanna óumbeðið, segir Þórólfur það borga sig vegna mikillar samkeppni á vinnumarkaði og bætir við: „Ég væri ekki að fara rétt með þann mannauð sem býr í konunum ef þær væru ekki ánægðar.“ Einnig segir Þórólfur gegnsæi vera mikilvægt í launamálum. „Þetta þarf að vera þannig að upplýsingar um launin mættu finnast hvar sem er. Það versta sem gæti gerst væri að starfsmaður sæi að sér væri mismunað en svo þarf ég líka sjálfur að vera sannfærður um að geta varið hverja einustu launabreytingu.“