Alþjóðahús og karlahópur Femínistafélags Íslands munu í framtíðinni gefa út forvarnarefni, s.s. gegn kynbundnu ofbeldi, á öðrum tungumálum en íslensku. Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss, segist vona að vinna við verkefnið fari á fullt í sumar.
„Þetta snýst um að samfélagið er að breytast og víkka þarf út þau verkefni sem fyrir liggja,“ segir Einar sem vonast eftir að fá stuðning dómsmálaráðuneytis vegna kostnaðar við þýðingar. Hann hefur þegar fundað með Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra sem var að sögn jákvæður í garð verkefnisins.