Frumvarp, sem gerir ráð fyrir að alþingismönnum verði heimilt að ráða sér aðstoðarmenn, var samþykkt á Alþingi í dag með atkvæðum þingmanna allra flokka nema VG, sem sátu hjá, Jóns Magnússonar, þingmanns Frjálslynda flokksins, sem greiddi atkvæði á móti, og Marðar Árnasonar, Samfylkingu, sem sat hjá.
Samkvæmt frumvarpinu fá þingmenn að ráða sér aðstoðarmenn eftir reglum, sem forsætisnefnd þingsins setur og fjárveitingar á fjárlögum heimila. Gert er ráð fyrir að þessi heimild nái í upphafi til formanna stjórnarandstöðuflokka, sem fái að ráða aðstoðarmenn í fullt starf, og þingmanna Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma, sem fái að ráða aðstoðarmenn í hlutastarf.
Um er að ræða útfærslu á samkomulagi, sem þingflokkar gerðu samhliða breytingum á þingsköpum Alþingis í vetur. Samkomulagið gerði ráð fyrir að starfsaðstaða þingmanna yrði bætt, ekki síst stjórnarandstöðuþingmanna, með ýmsum ráðum.