Heimta aukavinnu

Rúmlega 90 hjúkrunarfræðingar á skurð-, svæfinga- og gjörgæslusviði Landspítalans hafa sagt upp störfum frá og með 1. maí næstkomandi. Þetta er mjög stór hluti starfsmanna á þessum deildum en að sögn Ernu Einarsdóttur, sviðsstjóra mannauðsskrifstofu spítalans, eru einungis um 20 hjúkrunarfræðingar sem ekki hafa sagt upp.

Ástæða uppsagnanna er breyting á vinnufyrirkomulagi á deildunum. Hingað til hefur mestöll vinnan verið unnin í dagvinnu og yfirvinna greidd sérstaklega. Nú er tekið upp vaktakerfi og dregið verður úr yfirvinnu.

Aðspurð um ástæðu breytinganna segir Erna að stofnuninni beri að virða reglur um vinnuvernd og hvíldartíma starfsmanna svo framarlega sem það sé hægt. „Það er það sem vakir fyrir okkur,“ segir hún.

Hjúkrunarfræðingar eru ekki sáttir við þetta enda mörg dæmi þess að fólk hafi valið sérmenntun á þessu sviði nær eingöngu vegna vinnutímans, að sögn viðmælenda 24 stunda.

Stéttarfélagið getur ekki andmælt

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir félagið ekki koma að deilunni. „Þarna er er stofnunin einhliða að breyta fyrirkomulagi vinnunnar. Við sem stéttarfélag getum ekki neitað eða andmælt því að hjúkrunarfræðingar fái sinn hvíldartíma,“ segir hún en bætir við: „Hver hjúkrunarfræðingur gerir það upp við sig hvort hann hlítir breytingunum eða ekki.“

Hún segir félagið fylgjast með og reyna að ráðleggja bæði starfsmönnum og stjórnendum, enda eru þeir sumir líka aðilar að félaginu.

Ekkert svar

Helga Kristín Einarsdóttir, sviðsstjóri skurðlækninga á LSH, tók sér tíu daga frest til að bregðast við uppsögnunum. Sá frestur er nú liðinn og hjúkrunarfræðingar telja sig ekki hafa fengið svör.

Að sögn Önnu Stefánsdóttur, hjúkrunarforstjóra LSH, hefur enn ekki verið ákveðið hvernig brugðist verði við uppsögnunum. Um það verður fundað í dag en til greina kemur að auglýsa eftir hjúkrunarfræðingum erlendis.

Í hnotskurn
Hjúkrunarfræðingar á skurð-, svæfinga- og gjörgæslusviði hafa að mestu unnið í dagvinnu. Útköll hafa verið í yfirvinnu. Nú eiga allir að vinna á vöktum, burtséð frá sérsviði sínu, og dregið verður úr aukavinnu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert