Rúmlega 90 hjúkrunarfræðingar á skurð-, svæfinga- og gjörgæslusviði Landspítalans hafa sagt upp störfum frá og með 1. maí næstkomandi. Þetta er mjög stór hluti starfsmanna á þessum deildum en að sögn Ernu Einarsdóttur, sviðsstjóra mannauðsskrifstofu spítalans, eru einungis um 20 hjúkrunarfræðingar sem ekki hafa sagt upp.
Ástæða uppsagnanna er breyting á vinnufyrirkomulagi á deildunum. Hingað til hefur mestöll vinnan verið unnin í dagvinnu og yfirvinna greidd sérstaklega. Nú er tekið upp vaktakerfi og dregið verður úr yfirvinnu.
Aðspurð um ástæðu breytinganna segir Erna að stofnuninni beri að virða reglur um vinnuvernd og hvíldartíma starfsmanna svo framarlega sem það sé hægt. „Það er það sem vakir fyrir okkur,“ segir hún.
Hjúkrunarfræðingar eru ekki sáttir við þetta enda mörg dæmi þess að fólk hafi valið sérmenntun á þessu sviði nær eingöngu vegna vinnutímans, að sögn viðmælenda 24 stunda.
Hún segir félagið fylgjast með og reyna að ráðleggja bæði starfsmönnum og stjórnendum, enda eru þeir sumir líka aðilar að félaginu.
Að sögn Önnu Stefánsdóttur, hjúkrunarforstjóra LSH, hefur enn ekki verið ákveðið hvernig brugðist verði við uppsögnunum. Um það verður fundað í dag en til greina kemur að auglýsa eftir hjúkrunarfræðingum erlendis.