„Þetta er kólnun í fjármálageiranum af alvarlegri stærðargráðu og verri en niðursveiflan 1991. [...] Hún hefur áhrif á bankakerfið og húsnæðiskerfið – allt að tvær milljónir Bandaríkjamanna munu missa heimili sín á næstu 12 mánuðum að því er talið er, án þess að stjórnvöld grípi til aðgerða. Ástandið er því mjög alvarlegt.“
Þetta segir Joseph E. Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, sem rætt er við í Morgunblaðinu í dag.
Þau miklu útgjöld sem Íraksstríðið hefur haft í för með sér eiga þátt í efnahagsniðursveiflunni í Bandaríkjunum, að mati Stiglitz. Í næstu viku verða fimm ár liðin frá innrásinni í Írak og ef allt er lagt saman hefur hernaðurinn haft þriggja billjóna dala útgjöld í för með sér, sé sá kostnaður sem falla mun á bandarískan almenning í framtíðinni, svo sem vegna örorku hermanna, tekinn með í reikninginn.
Að mati Stiglitz hefur óábyrg efnahagsstefna ríkisstjórnar George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, um margt hulið áhrifin af kostnaðinum við stríðsreksturinn, staðreynd sem nú sé að koma fram þegar lánsfjárkreppan sé í algleymingi.