Önnur hver beita svæfði sílamáv

Sílamávar á Tjörninni í Reykjavík.
Sílamávar á Tjörninni í Reykjavík.

Tilraun með notkun svefnlyfja við svæfingu sílamáva var gerð í fyrra á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu  og voru 57 mávar svæfðir. Í skýrslu sem gerð var um tilraunina kemur fram, að  það sem kom einna mest á óvart við þessa tilraun hafi verið, að einungis um helmingur beitunnar skilaði sofandi mávi.

Tilraunin var síðan gerð í Þerney á Kollafirði og í Garðaholti á Álftanesi í júní 2007 og voru 57 mávar svæfðir. Svæfa mátti allt að 600 pör en varp árið 2007 var lélegt  þriðja árið í röð.

Tilraunin fór þannig fram að lyfin voru hrist saman við brauðteninga og þeir lagðir á egg. Eftir það hvarf tilraunafólk á braut í klukkustund. Þá var varp gengið aftur og sofandi mávum lógað og óetin beita hirt. Svæðið var síðan vaktað í sólarhring.

Í Þerney var svefnlyf sett í 74 hreiður, 28 mávar fundust sofandi á hreiðri, 5 sofandi í varpi, 5 sofandi í sjó. 16 beitur voru óétnar og 20 týndar. Í Garðaholti voru 42 hreiður beitt, 19 mávar fundust sofandi í hreiðri, enginn í varpi og 2 á sjó. 13 beitur voru óétnar og 8 týndar.

„Það sem kom einna mest á óvart við þessa tilraun var að einungis um helmingur beitunnar skilaði sofandi mávi," segir í skýrslu VST og að um fjórðungur beitunnar hafi ekki verið étinn „og það sem verra var að annar fjórðungur hvarf án þess að sofandi mávur hefði fundist og afdrif beitunnar því óljós. "

Þetta háa hlutfall „týndrar" beitu er áhyggjuefni að mati skýrsluhöfunda og verði svæfing reynd á ný þarf að endurskoða blöndun beitunnar til reyna að lækka það. „Ekki er ólíklegt að einhverjir mávanna hafi étið beituna án þess að sofna eða drukkna og jafnvel ælt henni upp hálfmeltri eins og reynsla, " segir í skýrslunni.

Helsti kostur svæfingar fram yfir skotveiðar, að mati höfunda, er að meiri líkur eru á að hægt sé að minnka varp verulega með einu áhlaupi. Helsti ókostur svæfingar felst í hættu á að friðaðar tegundir komist í beituna.

Verði tekin ákvörðun um að fækka í sílamávastofninum á höfuðborgarsvæðinu þá er svæfing aðferð sem kemur til greina, að mati skýrsluhöfundar. Til þess að svo megi verða þarf að fá undanþágu frá lögum og rökstyðja nauðsyn þess að hún verði notuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert