Segir sendiherra of marga

Valgerður Sverrisdóttir.
Valgerður Sverrisdóttir.

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði í fréttum Útvarpsins að engin þörf væri á fleiri nýjum sendiherrum strax og of langt hafi verið gengið í skipun fyrrverandi stjórnmálamanna í sendiherrastöður.

Valgerður sagði einnig, að þingmenn Samfylkingar hafi á sínum tíma gagnrýnt pólitískar embættisveitingar í utanríkisþjónustunni.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hefur skipað 3 nýja sendiherra: Grétu Gunnarsdóttur og Þóri Ibsen, sem bæði hafa starfað í utanríkisþjónustunni um árabil, og Sigríði Önnu Þórðardóttur, sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í 16 ár og var umhverfisráðherra í 2 ár. Hún verður sendiherra í Kanada í stað Markúsar Arnar Antonssonar - hann er eini sendiherrann sem lætur af störfum á árinu.

Þrír nýir sendiherrar  hafa verið skipaðir og einn mun láta af störfum á þessu ári en fimm til sjö hætta á árinu 2009. Ekki fást upplýsingar í utanríkisráðuneytinu um hvaða sendiherrar hætta á næsta ári en það er hins vegar ekkert leyndarmál að Markús Örn Antonsson, sendiherra í Kanada, hættir á þessu ári enda hefur hann verið skipaður forstöðumaður Þjóðmenningarhússins frá og með 1. september nk.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrum umhverfisráðherra, taka við sendiherrastöðunni í Kanada. Þá mun Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, sendiherra Íslands í Pretoríu í Suður-Afríku, taka við stöðu sendiherra í Ósló af Stefáni Skjaldarsyni. Guðmundur Eiríksson sendiherra, sem hefur starfað á skrifstofu alþjóðamála í utanríkisráðuneytinu undanfarið, mun taka við sem sendiherra í Suður-Afríku.

Þá mun Elín Flygenring, prótókollstjóri utanríkisráðuneytisins, fara til Strassborgar og taka við sem sendiherra hjá fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu sem starfar þar í borg og leysa sendiherrann Stefán Lárus Stefánsson af hólmi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert