Hjálparsím Rauða krossins 1717 stendur fyrir átaki þessa viku þar sem sjónum er beint að málefnum fólks sem á í greiðsluerfiðleikum. Átakið er undir yfirskriftinni „Þorirðu ekki að opna þau – opnaðu þig“ og er tilgangurinn að benda fólki á að það geti fengið ráðgjöf og upplýsingar um úrræði sem standa því til boða með því að hringja í Hjálparsímann 1717. Einnig er ætlunin að hvetja til umræðu í þjóðfélaginu um fjármálavanda heimilanna.
Hjálparsíminn vann að undirbúningi átaksvikunnar í samstarfi við Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og Fjármálaþjónustuna, og fengu sjálfboðaliðar sem svara í 1717 fræðslu frá þessum aðilum.
„Við höfum verið að fá 8-10 símtöl af þessum toga í hverjum mánuði og við finnum fyrir aukningu að undanförnu,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, verkefnisstjóri Hjálparsímans. „Við reynum að taka mið af umræðunni í þjóðfélaginu hverju sinni og því fannst okkur tímabært að vekja athygli á þessu máli.“
Elfa segir að fjármálavandi geti valdið mikilli vanlíðan, svo sem kvíða, streitu og örvilnan. Margir eigi erfitt með að ræða um ástand mála, jafnvel við sína nánustu og sitja þannig einir með áhyggjurnar og hugsanir sínar. „Það er oft erfiðast að taka fyrsta skrefið,“ segir Elfa en hjá Hjálparsímanum sé hægt að létta á hjarta sínu, fá upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru og hvatningu til að nýta sér þau. Oft sé greiðsluvandinn samtvinnaður öðrum vandamálum, s.s. þunglyndi, og er þá reynt að aðstoða fólk við að greiða úr því.