Boðað hefur verið til funda í bæjarstjórnum Reykjanesbæjar og Garðs í dag þar sem ætlunin er að afgreiða framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir álver í Helguvík. Ekkert er því til fyrirstöðu að hægt verði að taka fyrstu skóflustunguna að nýju álveri síðar í þessum mánuði og hefja framkvæmdir formlega fyrir lok þessa mánaðar. Þetta segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Segir hann um að ræða 120-150 þúsund tonna álver í fyrsta áfanga, en samþykkt umhverfismat byggist á 250 þúsund tonna álveri.
Að sögn Árna hafa byggingarfulltrúar beggja sveitarfélaga þegar samþykkt umsókn Norðuráls um framkvæmda- og byggingarleyfi og því sé afgreiðslan í dag einungis formsatriði. Sveitarfélögin hafa einnig breytt deiliskipulagi Helguvíkur sem var forsenda þess að hægt væri að reisa álver á svæðinu. Tekur hann fram að við útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis sé mjög mikilvægt að geta vitnað til samninga Norðuráls annars vegar við Landsnet um línulagnir og hins vegar við orkusala, en OR og HS hafa skuldbundið sig til að útvega 150 MW orku til fyrsta áfanga álvers í Helguvík, en samningurinn gerir ráð fyrir að byrjað verði að afhenda orkuna í lok árs 2010.
Eins og fram hefur komið hefur umhverfisráðherra ákveðið að taka til efnislegrar meðferðar kæru Landverndar á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að nýta ekki heimildir sínar til þess að láta framkvæma heildstætt umhverfismat fyrir álver í Helguvík og tengdar framkvæmdir.