Áhrifa aðhalds gætir ekki í laxveiðiám

Leigutakar laxveiðiáa merkja ekki minni ásókn fjármálafyrirtækja í laxveiði þetta árið, þrátt fyrir yfirlýsingar banka um aðhald og sparnað. Gengið er frá sölu veiðileyfa hvers sumars fyrir áramót, þannig að hugsanlegur niðurskurður kæmi ekki fram fyrr en í haust.

„Bankarnir hafa í gegnum tíðina alltaf keypt eitthvað af veiðileyfum,“ segir Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna. „Nú seinustu árin hefur það aukist og að einhverju leyti hefur verðið hækkað við það.“

„Við höfum ekkert fundið fyrir því að það hafi verið afpantað eða dregið úr pöntunum,“ segir Gísli Ásgeirsson hjá Laxi ehf. Gísli bendir á að löngu sé búið að ganga frá kaupum á veiðileyfum, en salan fari yfirleitt fram fyrir áramót.

24 stundir settu sig í samband við Glitni, Kaupþing og Landsbankann vegna málsins. Enginn þeirra sagðist gefa nánari upplýsingar um ferðir á vegum fyrirtækjanna. Allir ítrekuðu fyrri yfirlýsingar um sparnað og ráðdeild í fjármálum, án þess að tjá sig sérstaklega um niðurskurð í laxveiðiferðum.

Orri Vigfússon hefur litlar áhyggjur af því að kaupendur skorti að veiðileyfum, þótt hugsanlega dragi úr ásókn bankanna. „Það er nógu mikil eftirspurn í heiminum. Það kemur væntanlega eitthvað annars staðar frá í þeirra stað ef dregur úr.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert