Annþór sendur í afplánun

Frá Litla Hrauni.
Frá Litla Hrauni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjaness að Annþóri Karlssyni skuli gert að afplána 360 daga sem eru eftirstöðvar refsingar frá dómi Hæstaréttar frá árinu 2005. Var Annþór á reynslulausn en sterkur grunur er um að hann hafi framið brot sem varðar allt að 12 ára fangelsi. Fram kemur gögnum sem lögð voru fyrir dóminn, að Annþór eigi fjölda eigna sem hann hafi skráð á annað fólk.

Annþór skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2008 þar sem hann kærði úrskurður Héraðsdóms Reykjaness þar sem honum var gert að afplána 360 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann fékk reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 26. ágúst 2007.

Með dómi Hæstaréttar 28. apríl 2005 var Annþór dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar, en eins og áður sagði var honum veitt reynslulausn á 360 daga eftirstöðvum refsingarinnar.

Í kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir Héraðsdómi Reykjaness kemur m.a. fram að um nokkurt skeið hafi staðið yfir rannsókn á innflutningi á um 4.639,5 g af amfetamíni og 594,70 g af kókaíni sem fundist hafi við eftirlit lögreglu og tollgæslu í bifreið á vegum hraðflutningafyrirtækisins UPS á Keflavíkurflugvelli þann 15. nóvember sl. Í þágu rannsóknar málsins hafi lögreglan handtekið þann 23. og 24. janúar sl. þrjá menn sem allir hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Tveimur hafi verið sleppt úr gæsluvarðhaldi en sá þriðji er enn í haldi.

Þann 30. janúar sl. hafi lögreglan handtekið Annþór og hafi hann setið í gæsluvarðhaldi frá 31. janúar sl. vegna sterks gruns lögreglu um að vera viðriðinn innflutning fíkniefnanna hingað til landsins. Rannsókn málsins sé í fullum gangi og miði henni áfram. Unnið sé að rannsókn málsins í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld og m.a. sé beðið eftir upplýsingum erlendis frá varðandi þann samskiptamáta sem notaður hafi verið við skipulag innflutningsins hingað til landsins.

Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að innflutningur með þessum hætti hafi staðið yfir a.m.k. frá vormánuðum 2005. Telur lögreglan að töluvert mikið magn fíkniefna hafi komið til landsins með þessum hætti. Hafi lögreglan unnið að því að rannsaka tölvubúnað sem haldlagður hafi verið og jafnframt að vinna úr banka- og símagögnum sem aflað hafi verið. Sem stendur hafi ekki öll gögn borist erlendis frá enda rannsókn málsins nokkuð umfangsmikil.

Lögreglan telur Annþór vera undir sterkum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Hann hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 31. janúar sl. Lögreglan telur að kærði tengist fjármögnun brotsins, skipulagningu og móttöku fíkniefnanna. Talið sé að um mjög mikið magn hættulegra fíkniefna sé að ræða. Þyki því brot hans mjög alvarlegt. Annþór hafi neitað aðild að málinu. Lögreglu finnist hins vegar framburður hans mjög ótrúverðugur og hafi hann orðið margsaga um einstök atvik málsins. Lögreglan vísi til framburða annarra sakborninga og vitna í málinu. Þá hafi lögreglan unnið að rannsókn á fjármálum Annþórs en sú vinna hafi þegar leitt í ljós að hann eigi fjölda eigna sem hann hafi skráð á annað fólk í því skyni að blekkja yfirvöld. Hann hafi hins vegar ekki viljað tjá sig um fjárhag sinn og eignastöðu í yfirheyrslum. Þá vísar lögreglan til þess að kærði hafi aðfaranótt 15. febrúar sl. strokið úr haldi lögreglu en fundist í heimahúsi síðar sama dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert