Annþór sendur í afplánun

Frá Litla Hrauni.
Frá Litla Hrauni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæstirétt­ur staðfesti í gær úr­sk­urð Héraðsdóms Reykja­ness að Annþóri Karls­syni skuli gert að afplána 360 daga sem eru eft­ir­stöðvar refs­ing­ar frá dómi Hæsta­rétt­ar frá ár­inu 2005. Var Annþór á reynslu­lausn en sterk­ur grun­ur er um að hann hafi framið brot sem varðar allt að 12 ára fang­elsi. Fram kem­ur gögn­um sem lögð voru fyr­ir dóm­inn, að Annþór eigi fjölda eigna sem hann hafi skráð á annað fólk.

Annþór skaut mál­inu til Hæsta­rétt­ar með kæru 7. mars 2008 þar sem hann kærði úr­sk­urður Héraðsdóms Reykja­ness þar sem hon­um var gert að afplána 360 daga eft­ir­stöðvar fang­els­is­refs­ing­ar, sem hann fékk reynslu­lausn á með ákvörðun Fang­els­is­mála­stofn­un­ar 26. ág­úst 2007.

Með dómi Hæsta­rétt­ar 28. apríl 2005 var Annþór dæmd­ur til þriggja ára fang­elsis­vist­ar, en eins og áður sagði var hon­um veitt reynslu­lausn á 360 daga eft­ir­stöðvum refs­ing­ar­inn­ar.

Í kröfu lög­reglu­stjór­ans á Suður­nesj­um fyr­ir Héraðsdómi Reykja­ness kem­ur m.a. fram að um nokk­urt skeið hafi staðið yfir rann­sókn á inn­flutn­ingi á um 4.639,5 g af am­feta­míni og 594,70 g af kókaíni sem fund­ist hafi við eft­ir­lit lög­reglu og toll­gæslu í bif­reið á veg­um hraðflutn­inga­fyr­ir­tæk­is­ins UPS á Kefla­vík­ur­flug­velli þann 15. nóv­em­ber sl. Í þágu rann­sókn­ar máls­ins hafi lög­regl­an hand­tekið þann 23. og 24. janú­ar sl. þrjá menn sem all­ir hafi verið úr­sk­urðaðir í gæslu­v­arðhald á grund­velli rann­sókn­ar­hags­muna. Tveim­ur hafi verið sleppt úr gæslu­v­arðhaldi en sá þriðji er enn í haldi.

Þann 30. janú­ar sl. hafi lög­regl­an hand­tekið Annþór og hafi hann setið í gæslu­v­arðhaldi frá 31. janú­ar sl. vegna sterks gruns lög­reglu um að vera viðriðinn inn­flutn­ing fíkni­efn­anna hingað til lands­ins. Rann­sókn máls­ins sé í full­um gangi og miði henni áfram. Unnið sé að rann­sókn máls­ins í sam­vinnu við er­lend lög­reglu­yf­ir­völd og m.a. sé beðið eft­ir upp­lýs­ing­um er­lend­is frá varðandi þann sam­skipta­máta sem notaður hafi verið við skipu­lag inn­flutn­ings­ins hingað til lands­ins.

Rann­sókn lög­reglu hafi leitt í ljós að inn­flutn­ing­ur með þess­um hætti hafi staðið yfir a.m.k. frá vor­mánuðum 2005. Tel­ur lög­regl­an að tölu­vert mikið magn fíkni­efna hafi komið til lands­ins með þess­um hætti. Hafi lög­regl­an unnið að því að rann­saka tölvu­búnað sem hald­lagður hafi verið og jafn­framt að vinna úr banka- og síma­gögn­um sem aflað hafi verið. Sem stend­ur hafi ekki öll gögn borist er­lend­is frá enda rann­sókn máls­ins nokkuð um­fangs­mik­il.

Lög­regl­an tel­ur Annþór vera und­ir sterk­um grun um aðild að stór­felldu fíkni­efna­broti. Hann hafi setið í gæslu­v­arðhaldi frá 31. janú­ar sl. Lög­regl­an tel­ur að kærði teng­ist fjár­mögn­un brots­ins, skipu­lagn­ingu og mót­töku fíkni­efn­anna. Talið sé að um mjög mikið magn hættu­legra fíkni­efna sé að ræða. Þyki því brot hans mjög al­var­legt. Annþór hafi neitað aðild að mál­inu. Lög­reglu finn­ist hins veg­ar framb­urður hans mjög ótrú­verðugur og hafi hann orðið marg­saga um ein­stök at­vik máls­ins. Lög­regl­an vísi til framb­urða annarra sak­born­inga og vitna í mál­inu. Þá hafi lög­regl­an unnið að rann­sókn á fjár­mál­um Annþórs en sú vinna hafi þegar leitt í ljós að hann eigi fjölda eigna sem hann hafi skráð á annað fólk í því skyni að blekkja yf­ir­völd. Hann hafi hins veg­ar ekki viljað tjá sig um fjár­hag sinn og eigna­stöðu í yf­ir­heyrsl­um. Þá vís­ar lög­regl­an til þess að kærði hafi aðfaranótt 15. fe­brú­ar sl. strokið úr haldi lög­reglu en fund­ist í heima­húsi síðar sama dag.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert